Innlent

Segir sonarson sinn sólginn í rúsínur

Tveggja ára barnabarn Helga Vilhjálmssonar, kenndan við Góu, var meðal þeirra sem fengu íslenskan ríkisborgararétt í gær. Helgi segir drenginn vera lunkinn við að plata afa sinn til að gefa sér nammi, og er hann sérstaklega hrifinn af súkkulaðirúsínum.

Drengurinn er sonur Hannesar Þórs Helgasonar, sem féll fyrir hendi morðingja í fyrra. Mikil sorg hefur ríkt í fjölskyldunni en Helgi segir sonarsoninn sannkallaðan sólargeisla.

"Jújú, hann er það. Núna reynum við að hafa hann sem mest á Íslandi svo hann geti lært tungumálið," segir Helgi.

Drengurinn er fæddur í Eistlandi og heitir Siim Vitsut. Hann hefur þrisvar komið til Íslands á þessu ári ásamt móður sinni en þau mæðgin eru nýfarin aftur til Eistlands.

Barnabarnið er að sögn Helga mikill myndarpiltur og honum leiðist ekki að fá súkkulaði og rúsínur hjá afa sínum.

Þegar Helgi er spurður hvort drengurinn sé líkur föður sínum og afa, svarar Helgi því til að það sé nú svipur með þeim feðgum. "En hann verður ekki kallaður rauðhaus eins og ég og Hannes," segir Helgi sposkur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×