Enski boltinn

Varaforseti AC Milan í viðræður við City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með City í haust.
Carlos Tevez í leik með City í haust. Nordic Photos / Getty Images
Adriano Galliani, varaforseti AC Milan, heldur á fimmtudaginn til Manchester-borgar í Englandi til að ræða við forráðamenn Manchester City um möguleg vistaskipti Carlos Tevez til Ítalíu.

Tevez hefur ekkert spilað með City síðan hann neitaði að koma inn á sem varmaður í leik með liðinu í haust og hefur síðustu vikurnar dvalið í heimalandi sínu, Argentínu.

AC Milan hefur áhuga á kappanum en City vill aðeins selja kappann - ekki lána hann. En fram kom í enskum fjölmiðlum í kvöld að City er reiðubúið að lána hann út tímabilið ef AC Milan kaupir hann svo í sumar.

Nú þegar hefur City hafnað 23 milljóna evra tilboði AC Milan í Tevez. „Við eigum fund með Manchester City á fimmtudaginn en hann mun þó örugglega ekki hafa úrslitaáhrif í þessu máli," sagði Galliani við ítalska fjölmiðla.

„Við viljum fá hann á fríu láni með þeim rétti að geta keypt hann í júní. Leikmaðurinn vill koma til okkar en ekki PSG. Við vonumst til þess að City taki tilboði okkar."

Tevez hefur einnig verið orðaður við PSG í Frakklandi en yfirmaður knattspyrnumála hjá því félagi, Leonardo, ætlar ekki að blanda sér í málið ef að samningar takast á milli City og AC Milan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×