Sport

Wozniacki komin með nýjan þjálfara sem lofar risatitlum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caroline Wozniacki.
Caroline Wozniacki. Mynd/Nordic Photos/Getty
Caroline Wozniacki er annað árið í röð efsta sæti heimslistans en þessi danska tenniskona á samt enn eftir að vinna risamót á ferlinum. Hún er nú kominn með nýjan þjálfara sem á að reyna að hjálpa henni til að brjóta þann múr.

Nýi þjálfari hennar er Ricardo Sanchez sem er 52 ára gamall Spánverji og hann hefur trú á því að Wozniacki nái loksins að brjóta risamótsmúrinn á næsta ári.

„Hún mun vinna risamót. Hún er metnaðarfull en þarf að ná meiri stöðugleika í sinn leik. Hún á ekki að þurfa á heppni að halda til að vinna risamót," sagði Ricardo Sanchez í viðtali við Ekstrabladet.

„Ég hef rætt það við faðir hennar að ef hún nær að bæta sig um 30 prósent þá færi hún nauðsynlegt sjálfstraust til að spila afslappari á risamótunum," sagði Sanchez.

Piotr Wozniacki, faðir Caroline, hefur verið þjálfari hennar til þessa en hætti því í ágúst. Ricardo Sanchez vill vinna með honum að þjálfun dönsku tennisprinsessunnar.

„Ég kem með það markmið að hjálpa þeim. Ég vil að Piotr verði með mér í þessu. Saman getum við hjálpa henni að vinna risamót og vinna bestu spilarana," sagði Sanchez sem hefur fylgst með Caroline síðan 2008.

„Ég hef verið tennisþjálfari í 23 ár og ég sé að Caroline er klár og fljót að tileinka sér nýja hluti," sagði Sanchez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×