Enski boltinn

Milan má ræða við Tevez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tevez hefur helst verið orðaður við AC Milan á Ítalíu.
Tevez hefur helst verið orðaður við AC Milan á Ítalíu. Nordic Photos / Getty Images
AC Milan hefur fengið leyfi til að ræða við fulltrúa Carlos Tevez, að sögn Adriano Galliani, varaforseta Milan. Félagið hefur þó ekkert rætt við Manchester City um möguleg kaup á framherjanum.

Talið er að fulltrúar AC Milan hafi þegar fundað með Kia Joorabchian sem hefur starfað sem einn umboðsmanna Tevez.

„Tevez er leikmaður Manchester City,“ sagði Galliani við ítalska fjölmiðla. „Við höfum fengið leyfi til að tala við umboðsmanninn hans en höfum ekki rætt við City enn. Við vitum ekkert hvað félagið vill.“

„Ég vil helst ekki tala of mikið um Tevez, því þá mun verðið á honum hækka og það er ekki gott.“

Tevez hefur ekki verið í náðinni hjá City síðan hann neitaði að koma inn á sem varamaður í leik í Meistaradeild Evrópu í haus. Hann fór í leyfisleysi til Argentínu í síðasta mánuði og er enn staddur ytra.

„Hann er góður drengur, þrátt fyrir hegðun hans að undanförnu,“ sagði knattspyrnustjórinn Roberto Mancini við franska fjölmiðla. „En kannski er hann ekki með fólk í kringum sig sem getur gefið honum góðar ráðleggingar. Tevez hagaði sér heimskulega, sérstaklega þar sem hann er svo góður knattspyrnumaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×