Enski boltinn

Beckham ætlar ekki út í þjálfun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Beckham í leik með LA Galaxy.
David Beckham í leik með LA Galaxy. Nordic Photos / Getty Images
David Beckham hefur staðfest að hann hafi ekki áhuga á því að gerast knattspyrnustjóri félagsliðs eftir að leikmannaferli hans lýkur.

Beckham varð á dögunum meistari með liði sínu, LA Galaxy í Bandaríkjunum, en samningur hans við félagið rennur út á næstu dögum. Hann gæti reyndar spilað sinn síðasta leik með liðinu síðar í dag þegar það mætir Melbourne Victory í æfingaleik.

Beckham hefur verið sterklega orðaður við PSG í Frakklandi en hann hefur einnig greint frá því að hann hafi fengið tilboð frá mörgum félögum.

Hann var Fabio Capello, þjálfara enska landsliðsins, til aðstoðar á HM 2010 í Suður-Afríku á meðan hann var sjálfur að jafna sig á erfiðum meiðslum.

„Mér líkaði alls ekki við það,“ sagði Beckham. „Ég veit ekki hvernig þjálfarar og stjórar fara að þessu. Ég elska að vinna með krökkum og þjálfa krakka. En að stýra knattspyrnuliði hefur aldrei vakið sérstakan áhuga hjá mér. Ég naut reynslunnar í Suður-Afríku en það var erfitt að vera á hliðarlínunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×