Enski boltinn

Suarez enn á ný í vandræðum - gaf stuðningsmönnum Fulham fingurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez.
Luis Suarez. Mynd/Nordic Photos/Getty
Luis Suarez gengur mun betur þessa dagana að koma sér í vandræði en að finna marknetið hjá andstæðingum Liverpool-liðsins. Aganefnd enska knattspyrnusambandsins ætlar að skoða nánar bendingar hans í átt að stuðningsmönnum Fulham eftir 0-1 tap Liverpool á Craven Cottage í gær.

Myndir sýndu Luis Suarez gefa stuðningsmönnum Fulham fingurinn um leið og hann gekk af velli eftir tapið í gærkvöldi en svo er ekki enn komin niðurstaða í mál hans og Manchester United manninn Patrice Evra en franski bakvörðurinn ásakaði Suarez um kynþáttarníð.

„Ég hef ekki séð myndirnar en ef þetta er rétt þá þarf ég að taka stóra ákvörðun," sagði Kenny Dalglish, stjóri Liverpool um málið.

Aganefnd enska sambandsins bíður nú eftir skýrslu dómarans og hvort að þar standi eitthvað um framkomu Suarez í leiknum.

Eftir leikinn í gær hefur Luis Suarez ekki skorað í sjö deildarleikjum í röð og aðeins 7,7 prósent skota hans að marki mótherjanna hafa endaði í netinu. Úrúgvæmaðurinn hefur skorað fjögur deildarmörk en þau komu öll í sjö fyrstu leikjunum.

Suarez hefur nefnilega ekki skorað í ensku úrvalsdeildinni síðan í 2-0 sigri á Everton 1. október og er því markalaus síðan að Evra-málið kom upp 15. október síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×