Enski boltinn

Boothroyd ánægður með Heiðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jay Bothroyd fagnar marki í leik með QPR.
Jay Bothroyd fagnar marki í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images
Jay Boothroyd, sóknarmaður QPR og liðsfélagi Heiðars Helgusonar, er ánægður með Heiðar sem hefur nú skorað í fjórum heimaleikjum í röð.

Um metjöfnun er að ræða hjá QPR í ensku úrvalsdeildinni en Heiðar deilir nú metinu með Les Ferdinand. „Heiðar hefur verið að standa sig mjög vel,“ sagði Bothroyd í samtali við enska fjölmiðla.

„Hann hefur verið að skora mikið með skalla. Hann ræðst duglega á boltann og tímasetning hans er mjög góð,“ bætti hann við.

Heiðar var nálægt þvi að tryggja QPR sigur á West Brom með marki snemma í leiknum. En Shane Long jafnaði metin fyrir West Brom skömmu fyrir leikslok.

„Það voru vonbrigði að missa leikinn í jafntefli. Við stjórnuðum leiknum þar til að þeir jöfnuðu og þeir sköpuðu sér ekki mörg færi nema með skotum af löngu færi,“ sagði Bothroyd.

QPR mætir Liverpool um næstu helgi. „Það verður erfiður leikur. En við verðum að vera jákvæðir og fara með góðu hugarfari í leikinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×