Enski boltinn

Nær André Villas-Boas desember-prófunum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Chelsea.
Leikmenn Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
André Villas-Boas, stjóri Chelsea, á afar erfitt uppdráttar þessa dagana og enskir fjölmiðlar nefna hugsanlega brottrekstur í annarri hverri málsgrein enda hefur liðið nú tapað fimm af síðustu níu leikjum sínum.

Chelsea-liðið átti slakan dag í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Liverpool í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins en þetta var þriðja tap Chelsea-liðsins í síðustu fjórum heimaleikjum.

Framundan eru þrjú stór próf og það má telja það öruggt að Villas-Boas þarf helst að ná þeim öllum til að halda starfi sínu.

„Við verðum að ná sem mestu út úr desember-leikjunum okkar til þess að halda okkur inn í titilbaráttunni. Við erum að fara að mæta Newcastle, Manchester City og Tottenham í þessum mánuði og ef við klárum þá þá verðum við aftur komnir á fullu inn í baráttuna," sagði André Villas-Boas.

„Við unnum upp tvö stig á toppliðin um síðustu helgi og nú er það okkar áskorun að gera enn betur í desember. Við erum tíu stigum á eftir en það getur margt gerst á fjórum mánuðum, sagði Villas-Boas.



Desember-prófin hjá Chelsea-liðinu:

Newcastle Utd - Chelsea á laugardaginn

Erfiður leikur á St. James Park á móti spútnikliði deildarinnar. Newcastle situr eins og er í fjórða sætinu einu stigi á undan Cheslea og Newcastle-menn hafa ekki tapað á heimavelli sínum í vetur.

Chelsea - Valencia 6. desember

Chelsea verður að vinna leikinn til þess að komast áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar en markalaust jafntefli gæti líka dugað þeim tapi Bayern Leverkusen ekki sínum leik. Valencia skoraði sjö mörk í síðasta Meistaradeildarleiknum sínum sem var á móti Genk.

Chelsea - Manchester City 12 desember

Chelsea fær topplið Manchester City í heimsókn og það er ljóst að Chelsea-liðið má alls ekki tapa þessum leik ef það ætlar ekki að missa City-menn of langt á undan sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×