Enski boltinn

Mancini búinn að taka Agüero útaf í öllum leikjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Agüero.
Sergio Agüero. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sergio Agüero, framherji Manchester City, hefur farið á kostum á sínu fyrsta tímabili með liðinu en Argentínumaðurinn er búinn að skora tólf mörk í fyrstu sextán leikjum sínum í búningi City. Agüero kom inn á sem varamaður á móti Arsenal í gær og tryggði Manchester City 1-0 sigur á sæti í undanúrslitum enska deildarbikarsins.

Það vekur athygli að Mancini hefur tekið Agüero útaf í öllum ellefu leikjunum sem hann hefur byrjað í ensku úrvalsdeildinni. Agüero hefur skorað 10 mörk í 12 leikjum í ensku úrvalsdeildinni til þessa og er að skora á 80 mínútna fresti.

Agüero kom inn á sem varamaður í fyrsta leiknum og skoraði þá tvö mörk á móti Swansea City. Hann hefur komist næst því að klára leik þegar honum var skipt útaf á 82. mínútu bæði Fulham og Liverpool.

Agüero fékk að klára tvo fyrstu Meistaradeildarleikina með Manchester City en hefur síðan komið inn á sem varamaður í síðustu þremur leikjum liðsins í Meistaradeildinni.

Það hefur enginn leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar verið tekinn jafnoft af velli en næstur kemur Nathan Dyer sóknarmaður Swansea City sem hefur verið tekin níu sinnum af velli. Jermaine Pennant hjá Stoke hefur síðan átta sinnum verið tekin útaf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×