Innlent

Arnaldur fær enn ein verðlaunin

Arnaldi Indriðasyni rithöfundi hafa áskotnast enn ein verðlaunin á erlendri grund. Um er að ræða heiðursverðlaun menningarhátíðarinnar „Boréales/Région Basse-Normandie du Polar nordique" sem veitt verða í fyrsta sinn þann 19. nóvember nk. í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar.

Í tilkynningu frá Forlaginu segir að verðlaunin hljóti Arnaldur fyrir skáldsögur sínar í Frakklandi og þá sérstaklega Bettý sem kom út þar í landi hjá forlaginu Métailié í þýðingu Patricks Guelpa þann 27. október sl. og trónir nú í þriðja sæti franska metsölulistans yfir glæpasögur.

„Ekkert lát er á vinsældum bóka Arnaldar og hafa þær nú selst í hátt í sjö milljónum eintaka heima og erlendis og setið ofarlega á metsölulistum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Hollandi, Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi auk Íslands. Bækur hans hafa og sópað að sér verðlaunum hvarvetna og má þar nefna CWA Gold Dagger í Bretlandi, Glerlykilinn og Martin Beck-verðlaunin í Svíþjóð, Barry- og Macavity-verðlaunin í Bandaríkjunum, Grand Prix des Lectrice de Elle, Le Prix du Coeur Noir og Le Prix Mystère de la Critique í Frakklandi, og svo mætti lengi telja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×