Innlent

Leitaði aðstoðar eftir að hafa ráðist á leikskólakennara

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Maðurinn leitaði til geðlæknis tæpum mánuði fyrir morðið.
Maðurinn leitaði til geðlæknis tæpum mánuði fyrir morðið. mynd/ valli.
Ungi karlmaðurinn sem dæmdur var í morgun til að sæta öryggisvistun á Sogni vegna morðsins í Heiðmörk í maí var lagður inn á geðdeild tæpum mánuði áður en hann myrti sambýliskonu sína. Hann hafði þá ráðist á aðstoðarleikskólastjóra í Fjarðarbyggð, þar sem barn þeirra var í gæslu.

Maðurinn á sögu um langvarandi geðræn veikindi, sem einkennast meðal annars af ofskynjunum og ranghugmyndum. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá því í morgun kemur fram að maðurinn hafi leitað sér hjálpar eftir árásina á leikskólanum og verið lagður inn. Hann var svo útskrifaður af geðdeildinni einungis níu dögum áður en hann banaði sambýliskonu sinni.

Í skýrslutökum hjá lögreglu eftir morðið tók maðurinn fram að hann hefði ekki vitað að sambýliskona hans væri látin fyrr en skömmu áður en yfirheyrslan hófst. Hann hefði farið með konuna á slysadeild Landspítalans til að athuga hvort hægt væri að hjálpa henni. Hann sagði að síðustu dagar hjá sér hefðu verið mjög góðir en þennan sama dag og hann réðst á sambýliskonuna hefði hann byrjað að heyra raddir á nýjan leik.  Raddirnar hefðu meðal annars sagt honum að drepa konuna, en hann hefði ekki ætlað að hlusta á þær.


Tengdar fréttir

Dæmdur til vistunar á Sogni vegna manndráps

Ungur karlmaður hefur verið dæmdur til þess að sæta vistun á Sogni vegna manndráps í Heiðmörk í maí síðastliðnum. Maðurinn var fundinn sekur um að hafa banað sambýliskonu sinni og barnsmóður. Maðurinn játaði verknaðinn fyrir Héraðsdómi Reykjavikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×