Innlent

Um þrjú hundruð 2010-börn komin á einkarekna leikskóla

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ríflega þrjúhundruð og þrjátíu börn í Reykjavík, fædd árið 2010, hafa þegar fengið pláss á sjálfstætt starfandi leikskólum. Reykjavíkurborg greiðir mánaðarlega um fjórar milljónir króna til leikskólanna með þessum börnum.

Vegna fjárskorts hafa börn fædd árið 2010 ekki fengið pláss á leikskólum Reykjavíkurborgar nema þau sjötíu sem hafa fengið forgang vegna sérstakra aðstæðna.

Alls eru rúmlega níu hundruð börn á biðlista eftir plássi á leikskólum borgarinnar. Elstu börnin á þessum biðlista verða flest tveggja ára eftir rúman mánuð.

Samkvæmt samningum Reykjavíkurborgar við sjálfstætt starfandi leikskóla nemur mánaðargreiðsla vegna barns undir 24 mánaða aldri minnst 114 þúsund krónum á mánuði, en fer upp í 121 þúsund ef faghlutfall við leikskólann nær 65 prósentum.

Ef við miðum við lægri upphæðina fyrir hvert barn sem fengið hefur pláss á einkareknum leikskóla nemur upphæðin sem borgin greiðir um 3,8 milljónum á mánuði.

Flest þeirra barna sem þegar hafa fengið pláss eru á svonefndum ungbarnaleikskólum.

Borgin greiðir aðeins 37 þúsund krónur á mánuði með hverju barni hjá dagforeldri.

Rökin fyrir muninum á niðurgreiðslu til dagforeldra og til einkarekinna leikskóla er að gerðar eru meiri kröfur til leikskóla um faglegt starf, aðstöðu og menntun starfsfólks.

Eins og Reykjavíkurborg hefur gefið út er stefnt að því að öll börn fædd árið 2010 fái pláss á leikskólum borgarinnar árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×