Innlent

Björgólfur Thor ósáttur við heimildarmyndina

Björgólfur Thor
Björgólfur Thor
Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður er ósáttur við dönsku myndina Thors Saga sem sýnd var á RÚV um helgina. Í myndinni er fjallað um Thor Jensen langafa Björgólfs en ekki síður um hann sjálfan og hans umsvif fyrir og eftir hrun. „Ég stóð í þeirri trú að áherslan yrði fyrst og fremst á langafa okkar," segir Björgólfur. „Hins vegar fékk ég engu ráðið um útkomuna, fremur en aðrir sem samþykktu að koma fram í myndinni."

Björgólfur segir að eftir að hann hafi orðið þess áskynja að myndin hefði breyst mjög frá því sem honum var upphaflega sagt hafi hann ákveðið að vera ekki viðstaddur frumsýningu myndarinnar í september. „Ég ætlaði mér aldrei að vera í aðalhlutverki í myndinni og er ósáttur við hvernig það myndefni, sem fjölskylda mín lét í té, var notað úr öllu hófi. Mér finnst það rýra myndina hve mikið vægi nýliðnir atburðir hafa, á kostnað þess að fram náist góð heildarsýn yfir liðna tíð,“ segir Björgólfur á heimasíðu sinni.

Í pistlinum segist Björgólfur vel geta skilið frænda sinn Guðmund Andra Thorsson rithöfund, sem einnig er óánægður með myndina en Thor Vilhjálmsson faðir hans kemur einnig fram í myndinni. Hann segir í samtali við Eyjuna að Thor, sem lést fyrr á árinu, hefði aldrei viljað taka þátt í mynd sem fjallaði einkum um Björgólf Thor og umsvif hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×