Enski boltinn

Dalglish varar menn við því að vera með stæla

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er harður stjóri og hann hefur varað leikmenn sína við því að vera ekki með neina stæla þó svo þeir fái ekki alltaf að spila.

Dalglish var með Andy Carroll, Stewart Downing, Jordan Henderson og Jamie Carragher á bekknum gegn Chelsea. Dalglish segir að nafn eða verðmiði leikmanns skipti sig engu máli. Hann velji það lið sem hann telji henta hverju sinni.

Þess utan muni hann taka fast á þeim leikmönnum sem ætla að vera með stæla og reyna að skemma stemninguna í hópnum ef þeir séu ósáttir. Þá sé vel hægt að skipta þeim út.

"Auðvitað er erfitt fyrir alla að sitja á bekknum. Það er líka erfitt að halda þeim hungruðum og á tánum. Ef menn sem þurfa að sitja á bekknum mæta samt til leiks með rétt hugarfar og ekki neina stæla þá hjálpar það liðinu," sagði Dalglish.

"Ef einhverjir ætla að vera með stæla þá er það ekki mitt vandamál heldur þeirra því við munum þá einfaldlega fá leikmenn í þeirra stað sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu með okkur af fullum hug. Leikmenn verða líka að skilja að tímabilið er langt og það mun alltaf koma sá tími að menn fái tækifæri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×