Enski boltinn

Savage táraðist í sjónvarpssal: Það elskuðu allir Gary Speed

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Speed.
Gary Speed. Mynd/Nordic Photos/Getty
Robbie Savage var í vinnunni hjá BBC þegar hann frétti af því að vinur sinn Gary Speed hafði tekið sitt eigið líf í gær. Savage veitti viðtal um félaga sinn þótt að hann hafi augljóslega átt erfitt með sig enda táraðist hann í enda viðtalsins.

„Ég elskaði hann sem vin, konan hans var gullfalleg og hann átti yndislega fjölskyldu. Hann gerði allt fyrir alla," sagði Robbie Savage.

„Ég dýrkaði hann og hann var einn af hetjunum í mínu lífi. Hann var búinn að hjálpa mér mikið og ég talaði við hann í hverri viku," sagði Savage og bætti við:

„Það elskuðu allir Gary Speed. Hann var svo myndarlegur maður og hann hafði allt með sér. Af hverju gerðist þetta?"

„Hann tók mig undir sinn verndarvæng þegar ég kom inn í velska landsliðið. Hann hjálpaði mér svo mikið. Fyrir þremur vikum komhann síðan til að hvetja mig áfram í sjónvarpssal þegar ég tók þátt í Strictly Come Dancing," sagði Savage.

„Þetta eru ótrúlegustu fréttir sem ég hef fengið á ævinni. Ég talaði síðast við Gary í síma í gærmorgun og við áttum gott samtal. Hann átti svo góða fjölskyldu og var að standa sig svo vel í starfi. Af hverju gerðist þetta?"

Það er hægt að sjá viðtalið við Robbie Savage með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×