Enski boltinn

Guðni Bergs: Allir unnu Speed

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Speed.
Gary Speed. Nordic Photos / Getty Images
Guðni Bergsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, þekkti vel til Gary Speed sem lést nú um helgina. Hann segir að hans verði sárt saknað.

Speed var aðeins 42 ára gamall og átti að baki langan feril í ensku úrvalsdeildinni. Undanfarið ár hafði hann starfað sem landsliðsþjálfari Wales og náði hann góðum árangri með liðið.

Guðni mætti Speed margsinnis á vellinum þegar þeir léku báðir í Englandi. Guðni var gestur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Hann var góður knattspyrnumaður og verðugur andstæðingur," sagði Guðni en hlusta má á viðtalið hér fyrir ofan.

„Ég kynntist honum líka nokkuð vel eftir að hann gekk til liðs við Bolton, míns gamla félags. Hann var gríðarlega vel þekktur og vel liðinn knattspyrnumaður. Allir unnu honum - áhorfendur, samherjar og andstæðingar."

„Þetta var mikill harmdauði og óvæntar fréttir. Á svona stundu hugsar maður til fjölskyldu hans sem hlýtur að upplifa mjög erfiða tíma núna."

„Hann hafði tíma fyrir alla og var virkilega góður náungi. Hann var góður vinur allra þeirra sem hann kynntist í boltanum. Allir sem hafa tjáð sig um þetta segja hversu sárt hans verði saknað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×