Enski boltinn

Fjölskylda Speed þakklát stuðningnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fyrir utan Elland Road, heimavöll Leeds, í dag.
Fyrir utan Elland Road, heimavöll Leeds, í dag. Nordic Photos / Getty Images
Fjölskylda Gary Speed er agndofa yfir þeim stuðningi sem henni hefur verið sýnd eftir að Speed fannst látinn á heimili sínu um helgina. Þetta sagði umboðsmaður hans í samtali við enska fjölmiðla í kvöld.

Speed var aðeins 42 ára þegar hann lést en talið er að hann hafi fallið fyrir eigin hendi. Hann var atvinnumaður í knattspyrnu í mörg ár en undanfarið ár hafði hann stýrt velska knattspyrnulandsliðinu með góðum árangri.

Fjölmargir hafa sent fjölskyldu hans samúðarkveðjur með einum eða öðrum hætti. Hayden Evans var umboðsmaður Speed og náinn vinur en þeir þekktust í 20 ár. Evans var svaramaður Speed í brúðkaupi þess síðarnefnda sem lét eftir sig eiginkonu og tvo syni á táningsaldri.

„Fjölskylda Gary vill þakka öllum þeim sem hafa sent samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Við erum agndofa vegna stuðningsins og hefur hann hjálpað mjög til. Við biðjum nú um að fjölskyldan fái að syrgja í friði," sagði í yfirlýsingunni sem Evans las upp í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×