Enski boltinn

Mancini: Leikjaálagið spillir fyrir enska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini, stjóri Manchester City.
Roberto Mancini, stjóri Manchester City. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hefur bæst í hóp fjölmargra knattspyrnustjóra sem gagnrýna leikjaálagið í enska boltanum. Leikmenn Mancini verða í eldlínunni í enska deildarbikarnum í kvöld aðeins rúmum tveimur sólarhringum eftir að liðið mætti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

„Við förum til London og munum breyta öllu liðinu því þetta er ótrúleg aðstaða," sagði Roberto Mancini sem ætlar sem sagt að gera ellefu breytingar á byrjunarliði sínu á móti Liverpool þegar City mætir Arsenal í kvöld.

„Arsenal spilaði á laugardegi en við spiluðum á sunnudagskvöldi. Við ferðumst til London á mánudegi og spilum síðan á þriðjudagskvöldi. Ótrúlegt," sagði Mancini og bætti við:

„Ég tel að þetta sé ástæðan fyrir því að leikmenn enska landsliðsins mæta nær dauða en lífi á stórmótin. Leikmennirnir fá engan tíma til að jafna sig. Það er ótrúlegt að við þurfum að spila með tveggja daga millibil svo skömmu eftir ferðalag til Napolí," sagði Mancini en City-liðið spilaði á Ítalíu í Meistaradeildinni fyrir viku síðan.

„Ég veit ekki hverjum þetta er að kenna en enska úrvalsdeildin þarf að koma í veg fyrir svona leikjadagskrá. Það er mikilvægt að spila en menn verða að fá tíma til að jafna sig. Það þurfa að líða lágmark þrír dagar á milli leikja," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×