Enski boltinn

Aron Einar lagði upp mark í sigri Cardiff - frændi Gerrard skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar (17) í baráttunni í kvöld.
Aron Einar (17) í baráttunni í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
Cardiff komst í kvöld í undanúrslit ensku deildabikarkeppninnar með 2-0 sigri á Blackburn, botnliði ensku úrvalsdeildarinnar.

Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í liði Cardiff og lagði upp fyrra mark leiksins fyrir Kenny Miller á 19. mínútu. Hann átti stungusendingu inn fyrir vörn Blackburn á Miller sem skoraði af öryggi.

Miller var svo nálægt því að skora aftur, einnig eftir sendingu Arons, en leikmenn Blackburn vörðu á markalínu. En Anthony Gerrard skoraði svo seinna mark Cardiff snemma í síðari hálfleik með skalla og tryggði þar með sínum mönnum sigur.

Þess má svo geta að téður Gerrard er frændi Stevens Gerrard, leikmanns Liverpool og enska landsliðsins.

Það gengur því hvorki né rekur hjá Steve Kean og hans mönnum í Blackburn en B-deildarlið Cardiff er komið í undanúrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×