Enski boltinn

Stuðningsmenn Leeds minntust Gary Speed í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leeds heiðraði minningu Gary Speed í kvöld með því að vinna 4-0 sigur á Nottingham Forest í ensku B-deildinni. Stuðningsmenn liðsins sungu í ellefu mínútur samfellt um Speed.

Ákveðið var fyrir leikinn að á elleftu mínútu myndu stuðningsmenn Leeds hefja ellefu mínútna samfelldan söng til heiðurs Speed, sem fannst látinn á heimili sínu um helgina aðeins 42 ára gamall. Speed klæddist treyju númer ellefu þegar hann spilaði með Leeds á sínum tíma.

Það var viðeigandi að Leeds skoraði fyrsta mark leiksins þegar stuðningsmennirnir voru um það bil að ljúka sér af. Hér fyrir ofan má sjá myndband sem áhorfandi tók á vellinum í kvöld.

Speed hóf ferilinn hjá Leeds sem unglingur árið 1988 og varð meistari með liðinu árið 1992. Hann lék alls 312 leiki með félaginu og skoraði í þeim 57 mörk.

Knattspyrnustjóri Leeds er Simon Grayson en þeir gengu til liðs við Leeds á sama degi þegar þeir voru fjórtán ára gamlir. Hann bað sína leikmenn um að vinna leikinn fyrir Speed, sem og þeir gerðu.

Speed lék einnig með Everton, Newcastle, Bolton og Sheffield United á ferlinum og varð fyrsti leikmaðurinn til að spila 500 leiki í ensku úrvalsdeildinni. Þeir urðu á endanum 535 talsins. Hann starfaði síðast sem landsliðsþjálfari Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×