Enski boltinn

Vellauðugir Katarar hafa áhuga á að kaupa Blackburn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bræðurnir Balaji og Venkatesh Rao.
Bræðurnir Balaji og Venkatesh Rao. Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt enskum fjölmiðlum hefur hópur fjárfesta frá Katar áhuga á að kaupa enska úrvalsdeildarfélagið Blackburn ef indverska kjúklingaframleiðandanum Venky's. Eigendurnir segjast þá hafa engan áhuga á að selja félagið.

Venky's og Blackburn eru bæði í eigu eignarhaldsfélagsins VH Group. Stofnandi og forstjóri félagsins er B.V. Rao en dóttir hans, Anuradha Desai, er stjórnarformaður. Synirnir Balaji Rao og Venkatesh Rao eru svo báðir stjórnarmeðlimir.

Samkvæmt reglum félagsins verða öll fjögur að vera sammála um að selja Blackburn svo að salan geti gengið í gegn. Balaji Rao er hins vegar sagður alls ekki viljugur til að selja en hann mun vera mesti knattspyrnuáhugamaður fjölskyldunnar.

Það er hinn vellauðuga Al-Thani fjölskylda frá Katar sem er sögð hafa áhuga á að kaupa Blackburn af Venky's. Tamim bin Hamed Al-Thani var fyrst orðaður við Manchester United og hann sagður reiðubúinn að kaupa félagið á 1,5 milljón punda af enn einni fjölskyldunni - Glazer-fjölskyldunni sem á Manchester United.

Hins vegar gengu kaupin á Manchester United ekki eftir og því hefur Al-Thani verið að leita sér að öðru félagi til að kaupa. Taldi hann að Blackburn væri góður kostur þar sem félagið fengist ódýrt auk þess sem að núverandi eigendur, gætu selt félagið með smávegis hagnaði ári eftir að þeir keyptu það.

„Við höfum engan áhuga á að selja Blackburn," sagði Venkatesh Rao í samtali við staðarblaðið Lancashire Telegraph í dag og virðist því styðja bróður sinn.

Fulltrúar Al-Thani munu nú vera staddir í Indlandi þar sem þeir eiga í viðræðum við stjórnarformanninn Anuradha Desai. Samkvæmt enskum fjölmiðlum er þó talið ólíklegt að salan gangi í gegn þar sem Balaji er sagður svo eldheitur áhugamaður um knattspyrnu að hann geti ekki hugsað sér að selja.

Blackburn hefur gengið illa í upphafi leiktíðarinnar og er nú í næstneðsta sæti. Steve Kean, stjóri liðsins, er í mikilli ónáð hjá stuðningsmönnum en engu að síður bárust fregnir af því á dögunum að eigendur félagsins hafi verðlaunað Kean með nýjum langtímasamningi.

Blackburn er aðeins með sex stig eftir ellefu leiki. Liðið hefur unnið einn deildarleik til þessa í haust, ótrúlegan 4-3 sigur á Arsenal í september síðastliðnum þar sem að síðarnefnda liðið skoraði tvö sjálfsmörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×