Fótbolti

Ginola ætlar að kæra Houllier

"David er algjörlega brjálaður. Houllier þarf að hætta að tala svona og hætta að níðast á Ginola," sagði talsmaður David Ginola en Houllier lætur leikmanninn fyrrverandi víst heyra það í nýrri bók sem heitir: "Coaches's secrets".

Það er leikmaðurinn fyrrverandi allt annað en sáttur við og hann ætlar að kæra Houllier vegna þess sem hann lætur hafa eftir sér í bókinni.

Samband Ginola og Houllier var alla tíð stormasamt í kjölfar þess að Houllier kenndi leikmanninum um að Frakkland komst ekki í lokakeppni HM árið 1994. Houllier var þá þjálfari franska liðsins.

Frökkum dugði jafntefli í lokaleik sínum gegn Búlgaríu í undankeppninni. Staðan var 1-1 þegar lítið var eftir af leiknum. Þá átti Ginola skelfilega sendingu sem leiddi til þess að Búlgarar skoruðu sigurmark og skildu Frakka eftir.

"Houllier kenndi mér um að hafa slátrað HM-draumi Frakka. Minn glæpur var að eiga slæma sendingu sem átti að fara á Eric Cantona," sagði Ginola í sinni ævisögu sem kom út árið 2000.

Hér að ofan má sjá atvikið sem um ræðir. Ginola á sendingu í teiginn sem flýgur yfir Cantona. Búlgaría brunar upp í sókn og Emil Kostadinov skorar rándýrt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×