Innlent

Nýtt eldsneyti í boði

LVP skrifar
Nú þegar tæp ár er síðan að byrjað var byggja metanólverksmiðjuna við Svartsengi hefur hún formlega tekið til starfa og framleiðslan er kominn í fullan gang. Verksmiðjan er fyrsta sinnar tegundar í heiminum.

„Metanólið hér er búið til með því að taka koltvísýring sem er í jarðgufunni hér í virkjuninni hjá HS orku og síðan raforku sem við notum til þess að búa til vetni og þessu tvennu er blandað saman og úr því verður metanól," segir Benedikt Stefánsson.

Metanólinu er blandað út í bensín og úr verður eldsneyti sem hægt er að nota á alla bíla sem ganga fyrir bensíni.

„Þetta er í fyrsta skipti í raun og veru sem við blöndum vistvænu íslensku eldsneyti út í bensín þannig að núna erum við komin með íslensk eldsneyti á bensínbíla sem framleitt er með íslenskri orku. Við vonumst til þess að þegar fram líða tímar að þá geti menn notað þetta í einhverju mæli til þess að minnka innfluting á bensíni. En í fyrstu þá blöndum við í lágri blöndu sem að hentar öllum bensínbílum þannig að hver sem er getur tekið svona blandað eldsneyti á bílinn sinn," segir Benedikt jafnframt.

Til að byrja með er eldsneytið aðeins í boði á N1 stöðinni við Kringlumýrarbraut. Það er tveimur krónum ódýrara en venjulegt bensín. Benedikt segir ávinninginn þó fyrst og fremst þann að eldsneytið dregur úr mengun og gerir bílinn umhverfisvænni.

„Koltvísýringurinn sem við erum að reyna að minnka í andrúmsloftinu til að minnka hlýnun jarðar. Koltvísýringur sem færi út í andrúmsloftið annars vegar hér úr verksmiðjunni og hins vegar frá bílnum nú fer hann bara út einu sinni, það er að segja í bílnum, þannig að við erum að fullu búin að kolefnisjafna útblástur bifreiðarinnar af metanólinu," segir Benedikt að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×