Enski boltinn

John Terry ætlar ekki að hætta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry í viðtali eftir leikinn í gær.
John Terry í viðtali eftir leikinn í gær. Nordic Photosd / Getty Images
John Terry segir að það komi ekki til greina að gefa fyrirliðastöðu enska landsliðsins frá sér sjálfviljugur en hann hefur mátt standa í ýmsu síðustu daga og vikurnar.

Terry er nú sakaður um að hafa beitt Anton Ferdinand kynþáttaníði í leik Chelsea og QPR fyrir nokkrum vikum og er rannsókn í gangi bæði hjá enska knattspyrnusambandinu og lögreglunni í Lundúnum.

„Ég myndi aldrei hætta sjálfviljugur,“ sagði Terry sem var fyrriliði enska landsliðsins í 1-0 sigri á Svíum í vináttulandsleik í gær. „Mig dreymdi um að spila með enska landsliðinu sem barn og man að hafa horft á það spila þegar ég var 4-5 ára gamall.“

„Ég hef lagt mikið á mig til að komast þangað sem ég er í dag. Ég treysti mér vel til að bera fyrirliðabandið og er stoltur af því.“

Hann þakkaði einnig stuðningsmönnum enska landsliðsins fyrir stuðninginn. „Þeir hafa alltaf verið frábærir gagnvart mér og öðrum leikmönnum. Þeir styðja dyggilega við okkur og búa yfir mikilli ástríðu, rétt eins og við leikmennirnir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×