Enski boltinn

Gerrard hugsar um enska meistaratitilinn á hverjum degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Gerrard í leik með Liverpool í haust.
Steven Gerrard í leik með Liverpool í haust. Nordic Photos / Getty Images
Steven Gerrard segir að sú staðreynd að hann hafi aldrei unnið enska meistaraititlinn með Liverpool sæki á sig. Hann hugsi um titilinn á hverjum degi.

Gerrard hefur unnið flest annað með Liverpool; Meistaradeild Evrópu, UEFA-bikarinn, enska bikarinn og enska deildabikarinn. En Liverpool varð síðast meistari árið 1990, þegar Gerrard var tíu ára gamall.

„Það er eitthvað sem ég hugsa um á hverjum degi. Ég hugsa um hversu mikið mig dreymir um að vinna titilinn eða þá vonbrigðin sem fylgja því að hafa aldrei unnið hann,“ sagði Gerrard sem er 31 árs gamall.

Hann segir að það væri skelfilegt ef hann myndi leggja skóna á hilluna án þess að hafa orðið enskur meistari. „Það væru gríðarlega mikil vonbrigði. Ég væri þá kannski búinn að spila með Liverpool í 14-15 ár og mikil synd ef okkur tækist ekki að vinna titilinn.“

„En við höfum verið að reyna. Og ég tel að með þeim hópi leikmanna sem við eigum í dag getum við orðið meistarar á næstu árum, ef okkur tekst að halda áfram að styrkja liðið og bæta það.“

Gerrard hefur lítið getað spilað í haust vegna meiðsla en hann er nú að jafna sig eftir að hafa fengið sýkingu í ökkla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×