Enski boltinn

The Mirror: Lögreglan vill kæra Terry

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry í umræddum leik gegn QPR.
John Terry í umræddum leik gegn QPR. Nordic Photos / Getty Images
Enska götublaðið The Mirror staðhæfir í dag að lögreglan í Lundúnum ætli að krefjast þess að John Terry verði kærður af saksóknara bresku krúnunnar.

Terry er fyrirliði Chelsea og er gefið að sök að hafa beitt Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði í leik liðanna í síðasta mánuði. Terry er einnig fyrirliði enska landsliðsins og hefur verið gríðarlega mikið fjallað um málið í enskum fjölmiðlum síðan það kom upp.

Lögreglan hefur rannsakað ásakanirnar, sem og enska knattspyrnusambandið, og til að mynda yfirheyrt sex leikmenn Chelsea vegna málsins.

Terry hafði mjög ljót orð um Ferdinand eins og mátti sjá í sjónvarpsupptökum af atvikinu. Terry segir hins vegar að orðin hafi verið tekin úr samhengi. Ferdinand heyrði ekki hvað Terry sagði í leiknum sjálfum en fékk að vita eftir leik hvað Terry lét frá sér.

Lögreglurannsóknin er sögð vera ítarleg og að tíu rannsakendur hafi komið að málinu með einum eða öðrum hætti. Samkvæmt The Mirror hallast lögreglan nú að því að leggja það til við saksóknara að kæra Terry.

Terry hefur sjálfur ávallt staðfastlega neitað sök og hefur heitið því að hreinsa nafn sitt af ásökununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×