Enski boltinn

Gibbs og Jenkinson báðir meiddir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kieran Gibbs í leik með Arsenal.
Kieran Gibbs í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsenal varð fyrir áfalli í dag er fréttir bárust af því að bakvörðurinn Kieran Gibbs verði frá næsta mánuðinn vegna meiðsla.

Þá hefur annar bakvörður, Carl Jenkinson, verið að kvarta undan verki í baki og hefur komið í ljós að hann er með sprungu í beini í bakinu. Þarf hann að hvíla vegna þessa næstu daga og vikur.

Gibbs hlaut meiðsli í maga á æfingu í síðasta mánuði og hefur nú gengist undir aðgerð vegna kviðslits. Talið er að hann verði 4-5 vikur að jafna sig á henni.

„Við fengum slæmar fréttir því við misstum tvo bakverði í landsleikjafríinu,“ sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, „Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að allir aðrir leikmenn komu heilir á húfi til baka eftir landsleikahléið.“

Jack Wilshere, miðjumaðurinn öflugi, gat hins vegar fært stuðningsmönnum Arsenal þær góðu fréttir að hann fékk leyfi til að losa sig við hækjurnar sem hann hefur notað síðustu tvo mánuði, eftir að hann gekkst undir aðgerð vegna ökklameiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×