Enski boltinn

Mancini efast um að Tevez spili aftur fyrir City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City.
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini hefur ítrekað þá skoðun sína að Carlos Tevez muni ekki spila aftur í búningi Manchester City. Þetta sagði hann á blaðamannafundi í morgun.

Tevez kom sér í vandræði með því að neita að koma inn á sem varamaður þegar að City mætti Bayern München í Meistaradeild Evrópu fyrr í haust. Nú er hann staddur í Argentínu en þangað fór hann í leyfisleysi frá Englandi.

„Ég held að hann muni ekki spila aftur með Manchester City,“ sagði Mancini í morgun. „Ég veit að hann er í Argentínu en ég veit ekki hvað hann er að gera þar.“

Mancini vildi ekki tjá sig mikið um Tevez og gaf lítið fyrir spurningar blaðamanna. „Af hverju erum við að tala um Carlos? Það er mikilvægur leikur sem við eigum á morgun,“ sagði hann en þá mætir City Newcastle.

Hann sagðist þó ekki ætla að hafa samband við Tevez. „Nei. Það skiptir ekki máli þessa stundina. Við erum að glíma við þetta vandamál og ég vona að við náum að leysa fljótlega úr því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×