Enski boltinn

Van Persie hetjan í sigri Arsenal á Norwich

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Van Persie sýndi golfsveifluna sína þegar hann fagnaði öðru marka sinna í dag.
Van Persie sýndi golfsveifluna sína þegar hann fagnaði öðru marka sinna í dag. Nordic Photos / Getty Images
Robin van Persie var enn og aftur á skotskónum og skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri Arsenal á Norwich í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Norwich komst reyndar yfir í upphafi leiksins með marki Steve Morison en Van Persie var fljótur að jafna eftir að Arsenal hafði sótt mikið í fyrri hálfleiknum. Hann tryggði sínum mönnum svo sigurinn með laglegri vippu í seinni hálfleik.

Arsenal komst upp fyrir Liverpool með sigrinum í dag, um stundarsakir að minnsta kosti, en Norwich er í níunda sæti deildarinnar með þrettán stig. Arsenal er með 22 stig, rétt eins og Chelsea og Tottenham.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti og þá sérstaklega hjá sóknarmönnum Arsenal. Van Persie fékk færi eftir undirbúning Theo Walcott strax á annarri mínútu en skot hans var fram hjá. Stuttu síðar fékk hann annað færi, í þetta sinn eftir sendingu frá Andre Santos, en aftur hitti hann ekki markið.

Russell Martin, varnarmaður Norwich, sýndi svo stórbrotin tilþrif þegar hann varði skot Walcott á línunni úr nánast vonlausri stöðu.

Mark Norwich kom því algerlega gegn gangi leiksins og verður að skrifast á þýska varnarmanninn Per Mertesacker. Hann lét Steve Morison, sóknarmann Norwich, hirða boltann af sér á stórhættulegum stað og var eftirleikurinn auðveldur fyrir Morison.

Á næstu mínútum lét Martin aftur til sín taka því hann varði aftur á marklínu í tvígang eftir að Norwich komst yfir. Fyrst frá van Persie og svo eftir skot Gervinho.

En svo fór að ísinn brotnaði loksins undan sóknarþunga Arsenal. Van Persie skoraði sitt 30. deildarmark á árinu er hann potaði boltanum í markið af stuttu færi eftir sendingu Walcott frá hægri.

Heimamenn reyndu að sækja eftir jöfnunarmarkið en allt kom fyrir ekki og var staðan jöfn í hálfleik, 1-1.

Síðari hálfleikur var ekki jafn fjörlegur og sá fyrri en Arsenal hélt þó áfram að sækja. Það bar árangur á 58. mínútu og var markið sérlega glæsilegt. Van Persie fékk sendingu frá Song og náði að vippa yfir Ruddy í marki heimamanna úr þröngu færi.

Stuttu síðar fékk Anthony Pilkington gott færi til að jafna leikinn en fór illa að ráði sínu. Leikurinn fjaraði út og Arsenal er nú með 22 stig í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×