Enski boltinn

Heiðar skoraði tvö - ótrúlegt jafntefli botnliðanna | öll úrslit dagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helgason var enn og aftur á skotskónum fyrir QPR í ensku úrvalsdeildinni en í þetta sinn skoraði hann tvívegis í 3-2 sigri sinna manna á Stoke á útivelli. Everton og West Brom unnu mikilvæga sigra en botnliðin Wigan og Blackburn skildu jöfn í ótrúlegri viðureign.

Heiðar og félagar hans í QPR lentu reyndar undir gegn Stoke en skoruðu þá þrjú mörk í röð, þar af Heiðar tvö, sem dugði til að tryggja liðinu góðan sigur. Sunderland og Fulham gerðu svo jafntefli í markalausum leik en Bolton er enn í tómum vandræðum á fallsvæðinu eftir 2-1 tap fyrir West Brom.

Everton tryggði sér hins vegar þrjú mikilvæg stig með 2-1 sigri á Wolves.

Leikir dagsins:

Manchester City - Newcastle 3-1

Manchester City vann 3-1 sigur á Newcastle í toppslag deildarinnar en lesa má um þann leik hér.

Stoke - QPR 2-3

1-0 Jonathan Walters (7.)

1-1 Heiðar Helguson (22.)

1-2 Luke Young (44.)

1-3 Heiðar Helguson (54.)

2-3 Ryan Shawcross (64.)

Heiðar Helguson var á sínum stað í byrjunarliði QPR sem mætti Stoke. Adel Taarabt var hins vegar ekki í leikmannahópi liðsins og hjá Stoke var Thomas Sörensen kominn í markið fyrir Asmir Begovic, sem hefur ekki verið upp á sitt besta upp á síðkastið. Danny Higginbotham var í byrjunarliði Stoke eftir sjö mánaða fjarveru vegna meiðsla.

Jon Walters skoraði snemma fyrir Stoke eftir stungusendingu Peter Crouch sem sjálfur var nálægt því að tvöfalda forystu Stoke stuttu síðar, þó án árangurs.

Þess í stað náði Heiðar að jafna metin en það gerði hann með skalla eftir fyrirgjöf Armand Traore. Var það í raun fyrsta hættulega sókn QPR í leiknum en hana nýtti Heiðar vel enda gríðarlega öflugur skallamaður.

QPR komst svo yfir með marki Luke Young undir lok fyrri hálfleiksins. Hann skoraði með föstu skoti eftir laglegan undirbúning Shaun Wright-Phillips og Jamie Mackie.

Heiðar bætti svo sínu öðru marki í upphafi seinni hálfleiks, í þetta sinn af stuttu færi eftir sendingu Joey Barton. Ryan Shawcross minnkaði svo muninn fyrir Stoke eftir hornspyrnu stuttu síðar en þar við sat.

Everton - Wolves 2-1

0-1 Stephen Hunt, víti (36.)

1-1 Phil Jagielka (44.)

2-1 Leighton Baines, víti (82.)

Hvorki Everton né Wolves hafði tekist að halda marki sínu hreinu síðan í ágúst fyrir leik liðanna í dag. Það var þó ekkert skorað í dag fyrr en undir lok hálfleiksins og var varnarmaðurinn Stephen Hunt þar að verki með marki úr vítspyrnu, efitr að Marouane Fellaini hafði brotið á David Edwards. En aðeins fáeinum mínútum síðar voru heimamenn búnir að jafna metin með marki annars varnarmanns, Phil Jagielka. Hann skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Leighton Baines úr aukaspyrnu.

Tim Cahill komst nálægt því að tryggja Everton sigur seint í leiknum en skot hans af stuttu færi var varið af Hennesey í markinu. En hann kom engum vörnum við þegar að Baines skoraði úr vítaspyrnu stuttu síðar sem var dæmd eftir að Ward þótti brjóta á Louis Saha. Dómurinn umdeildur en með markinu tryggði Everton sér sigurinn í leiknum.

West Brom - Bolton 2-1

1-0 Jerome Thomas (15.)

1-1 Ivan Klasnic (20.)

2-1 Shane Long (55.)

Bolton vann góðan 5-0 sigur á Stoke í síðustu umferð en liðinu hafði vegnað nokkuð illa í upphafi tímabilsins. Varnarmaðurinn Gary Cahill var næstum búinn að koma sínum mönnum í Bolton yfir strax í upphafi leiksins í dag en skalli hans var varinn á marklínunni.

Það voru þó heimamenn sem komust yfir í dag með marki Jerome Thomas skoraði eftir sendingu Zoltan Gera. Leikmenn Bolton voru þó ósáttir þar sem þeir vildu fá dæmda rangstöðu á Thomas. Þeir náðu þó að jafna metin þökk sé marki Ivan Klasnic úr vítaspyrnu, eftir að téður Thomas hafði brotið á Fabrice Muamba.

Shane Long, sem hefur verið frá vegna meiðsla síðustu vikurnar, og tryggði hann West Brom sigurinn með skalla eftir sendingu Nicky Shorey í upphafi seinni hálfleiksins.

Sunderland - Fulham 0-0

Kieran Richardson var nálægt því að koma Sunderland yfir snemma leiks en skot hans endaði í stönginni. Stuttu síðar átti Jack Colback skot sem Mark Schwarzer, markvörður Fulham, varði í slánna.

Heimamenn komust svo nálægt því að skora undir lok leiksins en Schwarzer var enn og aftur vel á verði - í þetta sinn varði hann skot Stephane Sessegnon sem var kominn í gott færi.

Wigan - Blackburn 3-3

0-1 Yakubu Aiyegbeni (2.)

1-1 Jordi Gómez (7.)

2-1 Gary Caldwell (30.)

2-2 David Hoilett (59.)

3-2 Albert Crusat (87.)

3-3 Yakubu Aiyegbeni, víti (98.)

Tvö neðstu lið deildarinnar mættust þegar að Wigan tók á móti Blackburn. Sannarlega athyglisverður slagur en Wigan, sem hafði tapað átta leikjum í röð í deildinni fyrir leikinn, byrjaði á því að fá mark á sig eftir aðeins 68 sekúndur.

Yakubu var þar að verki með laglegri vippu. Langur bolti kom inn í teig og barst fyrir Yakubu eftir að Gary Caldwell mistókst að hreinsa frá marki.

Wigan náði þó að jafna aðeins sex mínútum síðar. Það gerði Jordi Gomez með öflugur skoti af um 20 metra færi. Paul Robinson í marki Blackburn átti ekki möguleika. Morten Gamst Pedersen var svo nálægt því að koma Blackburn aftur yfir um miðbik hálfleiksins en skot hans hafnaði í stönginni.

En svo komst Wigan yfir. Caldwell var þar að verki og bætti hann þar með fyrir mistökin í upphafi leiksins. Caldwell skoraði með skalla en hann var skilinn eftir dauðafrír eftir hornspyrnu heimamanna.

Ekki skánaði ástandið í upphafi seinni hálfleik er David Dunn, leikmaður Blackburn, fékk að líta sína aðra áminningu og þar með rautt. Þrátt fyrir að vera manni færri náði þó Blackburn að jafna metin með ansi skrautlegu marki.

Blackburn fékk þá hornspyrnu. Yakubu ætlaði að taka hana, sveiflaði fætinum en virtist ekki koma við knöttinn. Pedersen virtist svo einfaldlega taka boltann með sér í stað þess að sparka boltanum. Hann reyndi svo skot að marki, Ali Al Habsi varði en Hoilett fylgdi eftir og skoraði af stuttu færi.

Varamaðurinn Hugo Rodallega komst svo nálægt því að koma Wigan aftur yfir en Robinson varði glæsilega frá honum í marki Blackburn. En stuttu síðar náði Albert Crusat að koma Wigan aftur yfir í leiknum en hann potaði í markið af stuttu færi eftir að Rodallega átti skalla að marki.

En þar með var þessum skrautlega leik ekki lokið. Yakubu átti eftir að eiga síðasta orðið en hann tryggði Blackburn 3-3 jafntefli í ótrúlegum leik með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Það var enginn annar en Paul Robinson, markvörður Blackburn, sem fékk vítið eftir að David James sparkaði í höfuð hans. Yakubu skorði örugglega úr vítaspyrnunni.

Robinson hætti sér semsagt fram í sóknina á lokaandartökum leiksins en hann fékk ansi ljótt sár í andlitið eftir sparkið frá James. Jafnteflið gæti þó reynst dýrmætt fyrir Steve Kean, stjóra Blackburn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×