Enski boltinn

Kean: Ekki séns að við föllum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Steve Kean, knattspyrnustjóri Blackburn, hefur engar áhyggjur af slæmri stöðu liðsins í ensku úrvalsdeildinni og segir engan möguleika á því að liðið falli úr deildinni í vor.

Blackburn hefur aðeins unnið einn leik af ellefu til þessa á tímabilinu og er í næstneðsta sæti með sex stig. Blackburn mætir einmitt botnliði Wigan síðar í dag en síðarnefnda liðið hefur tapað átta síðustu elikjum sínum í deildinni.

Kean hefur verið afar umdeildur í starfi. Stuðningsmenn Blackburn hafa mótmælt veru hans hjá félaginu og vilja hann burt. Eigendur félagsins virðast hins vegar ánægðir með hans störf, enn sem komið er.

Kean telur að liðið hafi átt meira skilið úr sínum leikjum að undanförnu en úrslitin hafa sýnt. „Við viljum komast á góðan skrið sem muni endast alla vega fram yfir jól,“ sagði Kean við enska fjölmiðla.

„Við þurfum að vera ákveðnir. Við viljum vinna og er það markmið okkar. Það er ekki möguleiki að við munum falla í vor og þurfum við bara að halda áfram að gera það sem við gerum.“

„Ég tel að eigendur félagsins og meirihluti stuðningsmanna liðsins geri sér grein fyrir því að staða okkar í deildinni gefi ekki rétta mynd af liðinu. Við ættum að vera með 6-7 stigum meira en við erum með og vera um miðja deild.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×