Innlent

Þurfa að fara aftur í nýrnaígræðslu

Runólfur Pálsson.
Runólfur Pálsson.
Sífellt algengara er að græða þurfi nýtt nýra í nýrnaþega þar sem nýrun sem þeir höfðu áður fengið grædd í sig hafa gefið sig sökum aldurs. Þetta fjölgar þeim sem þurfa nýrnaígræðslur.

Við sögðum frá því í fréttum okkar í gær að sautján Íslendingar hafa gengist undir nýrnaígræðslu í ár sem er metfjöldi. Þá hafa ríflega helmingi fleiri greinst með nýrnabilun það sem af er árinu en síðustu ár eða þrjátíu og fjórir. Þetta er nokkur breyting frá því sem áður var en á síðastliðinum áratug hafa nýrnaígræðslur jafnan ekki verið nema tíu til ellefu á ári.

Runólfur Pálsson er yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum og umsjónamaður líffæraígræðsluteymis spítalans. Hann segir enga eina skýringingu á aukningunni. Oft sé um að ræða afleiðingar sykursýki, háþrýstikemmda á nýrum og nýrnabilnun af þeirra völdum sem er algengasta orsök nýrnabilunar. Þá segir Runólfur stærstan hluta þeirra sem þurfa meðferð vera aldraða. Þá hafi það líka áhrif á fjölda þeirra sem þurfa á nýrnaígræðslu að halda að þeir sem hafa fengið slíka ígræðslu þurfa í auknu mæli ný nýru.

„Ein af ástæðum aukinnar eftirspurnar eftir nýra er að einstaklingar sem að áður hafa haft ígrætt nýra og eru komnir með bilun í nýra þeir eru að koma inn á biðlistann í auknu mæli á ný og gangast undir ígræðslu á nýjan leik. Í sumum tilvikum þá getur fólk gengist undir ígræðslu í nokkur skipti á lífsleiðinni, segir Runólfur Pálsson.“

Runólfur segir ástæðuna þá að ígrædd nýru endist aðeins í takmarkaðann tíma.

„Ígrædd nýru endast í takmarkaðann tíma. Þau verða fyrir skemmdum í tengslum við ígræðsluna, sérstaklega þegar um er að ræða nýru frá látnum gjafa, þá verða blóðþurðarskemmdir og þrátt fyrir ónæmisbælandi meðferð sem heldur aftur af áhrifum ónæmiskerfisins sem annars myndi eyðileggja nýrað þá er slík meðferð aldrei fullkomin. Það getur líka verið eiturvirkni lyfja sem einstaklingar þurfa að taka sem gerir það að verkum að endingartíminn er takmarkaður. Hann er um tíu til tólf ár að meðaltali, kannski tólf ár í dag hjá þeim sem hafa fengið nýra frá látnum gjafa, en lengri hjá þeim sem fá nýru frá lifandi gjafa eða tuttugu eða tuttugu og fimm ár eða jafnvel lengri,“ sagði Runólfur Pálsson yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×