Enski boltinn

Wenger: Sjáum til hvort ég verði stjóri Arsenal á næsta tímabili

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger segir óvíst að hann verði stjóri Arsenal á næsta tímabili og ætlar að skoða sín mál í sumar. Þetta sagði hann í viðtali við franska blaðið L'Equipe.

Ummælin hafa vakið mikla athygli og eiga fjölmiðlar í Englandi sjálfsagt eftir að velta sér mikið upp úr málinu á næstu dögum.

Wenger hefur verið stjóri Arsenal síðan 1996 og þrívegis orðið Englandsmeistari með liðinu, síðast árið 2004. Á ýmsu hefur gengið síðustu mánuðina en liðinu hefur þó vegnað vel í síðustu leikjum.

„Ég mun skoða mín mál í lok tímabilsins. Ég á tvö ár eftir af samningnum mínum," sagði Wenger. „En hvort ég ég verði áfram eða ekki skiptir ekki máli. Mestu máli skiptir að eftirmaður minn hafi réttan grundvöll til að ná árangri eftir að ég hætti."

Arsenal mætir Norwich nú í hádeginu en liðið er nú í sjöunda sæti deildarinnar. Liðið byrjaði illa í haust en unnið tíu af síðustu ellefu leikjum sínum í öllum keppnum.

„Við munum gera okkur betur grein fyrir því í desember hvað við eigum möguleika á að ná langt. Það var nauðsynlegt að byggja leikmannahópinn upp á nýtt vegna skorts á sjálfstrausti í hópnum. Það tekur sinn tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×