Íslenski boltinn

Ólafur Örn „með samning og fer ekki neitt“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Örn Bjarnason.
Ólafur Örn Bjarnason. Mynd/Daníel
Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, á von á því að Ólafur Örn Bjarnason verði áfram í herbúðum Grindavíkur sem leikmaður.

Ólafur Örn hætti sem þjálfari liðsins eftir tímabilið en hann hefur bæði stýrt liðinu og leikið með því síðan hann sneri aftur heim úr atvinnumennsku í Noregi sumarið 2010.

Hann hefur sjálfur sagt að hann ætli að skoða sín mál og bíða þess að sjá hver verði næsti þjálfari liðsins áður en hann ákveði framtíð sína sem leikmaður. Grindvíkingar hafa nú ákveðið að hefja viðræður við Guðjón Þórðarson um þjálfarastarfið.

„Ólafur Örn er með leikmannasamning við Grindavík til 2013 og því verður hann áfram hjá okkur. Hann er ekki á leiðinni neitt,“ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi í morgun. Þorsteinn sagði enn fremur að uppsögn hans sem þjálfari hefði engin áhrif á leikmannasamninginn.

Ólafur lék alla 25 leiki Grindavíkur í deild og bikar nú í sumar og skoraði í þeim eitt mark, fyrra markið í 2-0 sigri liðsins á ÍBV í lokaumferðinni en með honum bjargaði Grindavík sér frá falli á ævintýralegan máta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×