Fótbolti

Þorsteinn Gunnarsson lætur af formennsku í Grindavík

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Þorsteinn Gunnarsson ásamt Robbie Winters.
Þorsteinn Gunnarsson ásamt Robbie Winters. Mynd/Grindavík
Þorsteinn Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur ætlar að láta af störfum vegna ákvörðunar félagsins um að hefja viðræður við þjálfarann Guðjón Þórðarson.

Eins og fram kom í fréttum okkar fyrir helgi ríkir ekki einuhugur um það innan knattspyrnudeildar Grindavíkur að ráða Guðjón í starf þjálfara. Engu að síður var sú ákvörðun tekin á stjórnarfundi í gær að hefja formlega viðræður við Guðjón sem var rekinn frá BÍ/Bolungarvík fyrir helgi.

Þorsteinn staðfestir í samtali við íþróttadeild Stöðvar 2 að hann hafi í ljósi þessarar ákvörðunar stjórnarinnar ákveðið að láta af störfum á aðalfundi í næstu viku en hann hefur verið mótfallinn viðræðum við Guðjón.

Þorsteinn hefur samhliða formannsstarfinu sinnt markmannsþjálfun hjá meistaraflokki Grindavíkur með góðum árangri en mun einnig hætta því. Þorsteinn kveðst þó hafa hug á að halda áfram slíkri þjálfun hjá öðru félagi.

Ólafur Örn Bjarnason sem þjálfað hefur Grindavíkurliðið síðasta eitt og hálfa leiktímabilið mun að öllu óbreyttu spila áfram með liðinu en hann er með samning út tímabilið 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×