Íslenski boltinn

Jónas fyrirgefur Guðjóni gömul svik

Hans Steinar Bjarnason skrifar
Guðjón er líklega á leið til Grindavíkur
Guðjón er líklega á leið til Grindavíkur
Jónas Þórhallsson býður sig fram til formennsku hjá knattspyrnudeild Grindavíkur í stað Þorsteins Gunnarssonar sem ætlar að hætta vegna yfirvofandi ráðningar Guðjóns Þórðarsonar. Jónas fyrirgefur Guðjóni sjö ára gömul svik og stefnir á titilinn á næsta ári.

Stjórn knattspyrnudeildar samþykkti í gær með sex atkvæðum gegn einu að hefja formlegar viðræður við Guðjón en Ólafur Örn Bjarnason þjálfar liðið ekki áfram í Pepsídeildinni á næsta ári.

Þorsteinn sagði við íþróttadeild í morgun að hann sé mótfallinn þessari stefnu í þjálfaramálum og ætlar að láta af störfum á aðalfundi í næstu viku. Hann ætlar líka að hætta markvarðarþjálfun hjá félaginu

Jónas Þórhallsson fyrrverandi formaður knattspyrnudeildar hefur tilkynnt um formannsframboð í stað Þorsteins.

Jónas sagði við Stöð 2 að óformlegar viðræður við Guðjón lofi góðu og hann hafi verið hagstæðasti kosturinn af fjórum. Þorsteinn vildi ráða Lárus Orra Sigurðsson og þá voru þjálfarar frá Englandi og Írlandi einnig í myndinni.

Jónas segist vera búinn að fyrirgefa Guðjóni atvik frá árinu 2004 þegar gengið hafði verið frá samkomulagi við hann um að þjálfa Grindavík. Guðjón sneri þá baki við Grindvíkingum og réði sig til Keflavíkur.

„Ég er kristinn maður og lærði það í góðri bók að fyrirgefa," sagði Jónas við íþróttadeild í dag og sagði Grindavík stefna á Íslandsmeistaratitilinn á næsta ári með Guðjón við stjórnvölinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×