Enski boltinn

Dalglish hefur ekki áhyggjur af varnarleik Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool.
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, segir að enn sé eftir vinna með varnarleikinn hjá liðinu en Liverpool hefur aðeins náð að halda marki sínu hreinu í einum leik það sem af er tímabilinu. Liverpool sækir nágranna sína í Everton heim í ensku úrvalsdeildinni í dag í 216. Merseyside-slagnum.

„Ég vill ekki ganga svo langt að segja að ég hafi áhyggjur af varnarleiknum en við þurfum að halda áfram að vinna í vörninni. En á meðan við skorum fleiri mörk en mótherjarnir þá er þetta í fínu lagi," sagði Kenny Dalglish en eini leikurinn sem Liverpool hefur haldið hreinu var í 2-0 sigri á móti Arsenal en Arsenal spilaði þá stóran hluta seinni hálfleiksins með aðeins tíu menn.

„Það er alltaf gott þegar andstæðingurinn þinn kemst ekki á blað og þó að við höfum verið undir smá pressu í síðustu viku á móti Wolves þá fengum við mun fleiri og hættulegri færi. Það var alltaf líklegra að við myndum auka forskotið en tapa því," sagði Dalglish.

„Ef þú ætlar að ná þér í stig þá hjálpar það náttúrulega að fá ekki á sig mörk en ég vil ekki gera varnarleikinn að einhverju vandamáli," sagði Dalglish en hann hefur verið að glíma við meiðsli í varnarlínunni. Martin Kelly og Glen Johnson hafa verið meiddir sem og Daniel Agger. Kelly er sá eini sem getur spilað á móti Everton í dag.

„Við viljum að sjálfsögðu ekki fá á okkur mörk en við erum að spila í sterkri deild þar sem eru fullt af góðum liðum og góðum leikmönnum sem eru alltaf líklegir til að skora mörk," sagði Dalglish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×