Íslenski boltinn

Atli Viðar aðeins sá þriðji sem fær skó þrjú ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnsson skorar hér eitt af þrettan mörkum sínum í sumar.
Atli Viðar Björnsson skorar hér eitt af þrettan mörkum sínum í sumar. Mynd/Daníel
Atli Viðar Björnsson tryggði sér silfurskóinn með því að skora tvö mörk á móti Fylki í lokaumferð Pepsi-deildar karla í gær. Atli Viðar skoraði 13 mörk í 20 leikjum í sumar, tveimur mörkum minna en gullskóhafinn Garðar Jóhannsson og einu meira en Kjartan Henry Finnbogason sem fær bronsskóinn.

Þetta er í þriðja árið í röð sem Atli Viðar fær skó en hann fékk silfurskóinn sumarið 2009 og svo bronsskóinn í fyrra.

Atli Viðar er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu Gull-, silfur- og bronsskóna sem nær að fá skó þrjú ár í röð. Gullskórinn var fyrst afhentur 1983, silfurskórinn bættist við árið eftir og frá og með 1985 var bronsskórinn kominn í hópinn.

Guðmundur Steinsson á enn metið en hann fékk skó fjögur ár í röð frá 1988 til 1991. Guðmundur fékk silfurskóinn 1988, bronsskóinn 1989 og 1990 og loks gullskóinn 1991. Guðmundur lék fyrstu þrjú árin með Fram en var kominn í Víking sumarið 1991.

Hörður Magnússon er þriðji meðlimurinn í þessum klúbb en hann fékk skó þrjú ár í röð frá 1989 til 1991. Hörður sem lék með FH eins og Atli Viðar, fékk gullskóinn 1989 og 1990 en varð að sætta sig við silfurskóinn 1991 af því að hann lék þá fleiri leiki en Guðmundur Steinsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×