Fótbolti

Þjálfari AEK fékk milljón evra fyrir starfslokin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manolo Jimenez, fyrrum þjálfari AEK.
Manolo Jimenez, fyrrum þjálfari AEK. Nordic Photos / Getty Images
Þó svo að gríska félagið AEK Aþena eigi í miklum fjárhagslegum erfiðleikum var engu að síður ákveðið að reka þjálfarann Manuel Jimenez og borga honum eina milljón evra í starfslokagreiðslu, eftir því sem kemur fram í grískum fjölmiðlum.

Félagið tilkynnti seint í gærkvöldi að Jimenez hafi látið af störfum og er fullyrt í Grikklandi að hann hafi einfaldlega verið rekinn.

AEK er ofarlega í grísku úrvalsdeildinni en liðið hefur þó tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í Evrópudeild UEFA, nú síðast fyrir Sturm Graz á heimavelli, 2-1.

Félagið mun hafa ákveðið að reka Jimenez eftir þann leik en það hafi tafist vegna þess að erfiðlega gekk að semja um starfslok. Alls tóku viðræðurnar um tíu klukkustundir en á endanum var samið um að Jimenez fengi um eina milljón evra í starfslokagreiðslu.

„Manolo verður ávallt hluti af sögu okkar félags eftir að liðinu tókst undir hans stjórn að vinna bikarkeppnina í fyrsta sinn í langan tíma í fyrra," sagði í yfirlýsingu AEK.

„Ég er ekki að segja bless heldur sjáumst síðar," sagð Jimenez. „En ég tel að nú sé rétti tíminn fyrir breytingar."

Nikos Costenoglou er orðaður við starfið en hann lék áður með AEK og hefur starfað við þjálfun hjá félaginu.

Arnar Grétarsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK. Hann sagði við Fótbolta.net í gær að félagið ætti í fjárhagserfiðleikum en félagið hefur til að mynda ekki greitt Blikum neitt fyrir kaupin á Elfari Frey Helgasyni. Þá eiga þeir Elfar Freyr og Eiður Smári Guðjohnsen inni laun hjá félaginu.

Breiðablik hefur tilkynnt málið til Knattspyrnusambands Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×