Fótbolti

Pearce: Aldrei auðvelt að vinna 3-0 sigur á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuart Pearce.
Stuart Pearce. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stuart Pearce, þjálfari enska 21 árs landsliðsins var ánægður með 3-0 sigur sinna manna á Laugardalsvellinum í kvöld. Pearce er með frábært lið í höndunum sem hafði ekki mikið fyrir sigrinum í kvöld.

„Það er aldrei neitt auðvelt í fótbolta. Ég er ánægður með úrslitin en við þurftum að vinna vel fyrir þeim. Ég er viss um að þjálfari íslenska liðsins sé svekktur með tvö markanna sem voru auðveld mörk. Ef þau hefðu ekki fallið fyrir okkur þá hefði þetta verið mjög spennandi leikur," sagði Stuart Pearce.

„Við erum ánægðir með úrslitin því það er erfitt að komast upp úr þessum riðli. Íslenska liðið gafst aldrei upp og það er hægt að hrósa þeim fyrir það. Ég sagði við strákana mína í hádeginu í dag að íslenska liðið væri lið sem gæfi allt sitt í leikina. Við vorum kannski heppnir með að (Guðlaugur Victor) Pálsson og (Björn Bergmann) Sigurðsson voru ekki með í kvöld en við vorum samt í svipaðri stöðu," sagði Stuart Pearce en hann var án United-leikmannanna Danny Welbeck og Phil Jones.

Arsenal-maðurinn Alex Oxlade-Chamberlain átti hinsvegar frábæran leik og skoraði öll þrjú mörkin í leiknum.

„Alex var frábær í kvöld, ekki bara vegna markanna sinni heldur hvernig hann spilaði fyrir liðið. Hann er mjög efnilegur leikmaður sem hefur vaxið mikið síðan að við vorum með hann í hópnum okkar í vor sem er mjög ánægjulegt," sagði Pearce.

„Það er mitt starf að hugsa um alla þessa stráka eins vel og ég get og sjá til þess að þeir vaxi og dafni. Þið afsakið þótt að ég missi mig ekki yfir frammistöðu Alex í kvöld en það er ykkar starf. Mitt starf er að sjá til þess að styðja við bakið á hanum í gegnum bæði góðu og slæmu stundirnar. Þetta var mjög gott kvöld fyrir hann," sagði Pearce.

„Við vorum kannski of öryggir með okkur síðustu tuttugu mínúturnar í fyrri hálfleik en strákarnir brugðust vel við því sem ég benti þeim á í hálfleiknum. Þeir komu með meiri eldmóð inn í seinni háflleikinn og pressuðu íslenska liðið," sagði Pearce.

„Þetta var mjög gott kvöld því það er aldrei auðvelt að vinna 3-0 sigur á Íslandi. Ég er mjög ánægður með leikinn," sagði Pearce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×