Fótbolti

Aron Einar: Toppaði ferðina að taka Sölva

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson sló á létta strengi í viðtali við Guðmund Benediktsson, íþróttafréttamann, í Portúgal í gær. Aron og félagar hans í íslenska landsliðinu mæta heimamönnum í undankeppni EM 2012 klukkan 20.00 í kvöld.

Guðmundur spurði hvort það væri rétt að Aron hefði tekið Sölva Geir Ottesen, varnarmann og fyrirliða, mjög létt „öxl í öxl“.

„Ég hef verið að lyfta grimmt í Cardiff og menn orðnir 89 kíló. Sölvi er því ekki að taka mig öxl í öxl þó svo að hann sé einn axlabreiðasti maður sem ég hef séð. Ég tók hann því bara létt og gerði þetta ferðina fyrir mig. Ég þarf eiginlega að gera ekkert meira.“

Hann segir þó um leikinn að leikmenn geri sér grein fyrir því að það verði ekki auðvelt að mæta sterku liði Portúgals.

„Það gera sér allir grein fyrir því að þetta verður erfiður leikur. En við munum standa sama og ef við mætum dýrvitlausir til leiks er aldrei að vita hvað gerist,“ sagði Aron Einar en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Þetta er síðasti leikur Óla sem þjálfara en hann var fyrstur til að gefa mér séns með landsliðinu, eins og svo mörgum öðrum í þessu liði. Við viljum gera vel á morgun fyrir hann.“

Hann hefur ekki skoðun á því hver eigi að taka við af Ólafi. „Mér er alveg sama hvort það verði Íslendingur eða erlendur þjálfari. Bara að rétti maðurinn verði fenginn í starfið.“

Aron ræðir einnig um veru sína hjá enska B-deildarliðinu Cardiff sem hann samdi við nú í sumar. Hann lék áður með Coventry í sömu deild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×