Enski boltinn

Fulham verður um kyrrt á Craven Cottage

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forráðamenn enska úrvalsdeildarfélagsins Fulham hafa staðfest að félagið ætlar ekki að flytja frá heimavelli sínum, Craven Cottage, en byggja við leikvanginn til að koma fyrir fleirum áhorfendum.

Craven Cottage tekur í dag 25.700 áhorfendur í sæti en áætlanir um að byggja við leikvanginn svo hann geti tekið um 30 þúsund manns í sæti hafa nú verið kynntar.

Fulham hefur verið á Craven Cottage síðan 1896 en sögusagnir höfðu verið á kreiki að nýr leikvangur yrði byggður fyrir félagið og þá í samvinnu við annað hvort QPR eða Chelsea, sem einnig eru staðsett í Lundúnum.

Árið 2002 var talið að Fulham hefði spilað sinn síðasta leik á Craven Cottage en liðið lék næstu tvær leiktíðir á eftir á Loftus Road, heimavelli QPR. Það var þó hætt við að byggja nýjan leikvang og þess í stað ákveðið að ráðast í endurbætur á Craven Cottage.

Og nú er svo komið að forráðamenn félagsins telja liðinu best borgið á sínum gamla heimavelli enda hefur liðið náð fínum árangri þar á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×