Enski boltinn

Warnock ætlar að halda Dyer

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dyer er hér borinn af velli í leiknum gegn Bolton.
Dyer er hér borinn af velli í leiknum gegn Bolton. Nordic Photos / Getty Images
Neil Warnock, knattspyrnustjóri QPR, ætlar að halda Kieron Dyer hjá félaginu þó svo að hann hafi aðeins náð að spila í þrjár mínútur með liðinu áður en hann meiddist.

Dyer hefur átt í stanslausum vandræðum með meiðsli á sínum ferli og þurfti að fara meiddur af velli eftir aðeins þriggja mínútna leik í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst síðastliðnum.

Það var fyrsti leikur Dyer með QPR en í fyrstu var talið að hann yrði aðeins frá í einn mánuð. Endurhæfingin hefur hins vegar gengið illa og nú er talið fullvíst að hann muni ekki spila meira á árinu.

Dyer gerði tólf mánaða samning við QPR og segir Warnock að félagið muni virða samninginn. „Það hefur verið orðrómur á kreiki um að hann myndi fara um áramótin en ég tel að hann eigi skilið að fá að klára samninginn sinn við okkur.“

„Útlitið er ekkert sérstaklega bjart hjá Kieron þessa stundina og hann þarf sennilegra á lengri endurhæfingu að halda en í fyrstu var talið. Ég vorkenni drengnum mikið, sérstaklega þar sem hann lagði mikið á sig á undirbúningstímabilinu.“

Dyer var áður á mála hjá West Ham en samningur hans við félagið rann út í sumar. Hann náði að spila aðeins 34 leiki með liðinu á fjórum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×