Fótbolti

Þjálfarinn misskildi reglurnar og spilaði upp á jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pitso Mosimane, landsliðsþjálfari Suður-Afríku.
Pitso Mosimane, landsliðsþjálfari Suður-Afríku. Nordic Photos / Getty Images
Ein stærsta frétt helgarinnar er misskiliningur landsliðsþjálfara Suður-Afríku í knattspyrnu sem hélt að jafntefli myndi duga liðinu til að komast í Afríkueppnina á næsta ári.

Undankeppninni lauk um helgina og gerði Suður-Afríka jafntefli við Sierra Leone á laugardaginn. Pitso Mosimane, þjálfari Suður-Afríku, hélt að jafntefli myndi duga en það reyndist ekki rétt.

Leikmenn og stuðningsmenn fögnuðu vel og innilega eftir leikinn áður en þeim var svo kippt niður á jörðina með þeim fréttum að þeir væru úr leik - Níger hefði komist áfram.

Suður-Afríka, Níger og Sierra Leone enduðu öll með níu stig í riðlinum. Pitso hélt að heildamarkatala myndi ráða niðurröðun liða í riðlinum ef lið væru jöfn að stigum en það reyndist rangt. Hið rétta er að árangur í innbyrðisviðureignum skiptir máli og þar stóð Níger best að vígi.

„Þetta er mjög dapurlegt fyrir Suður-Afríku því landið á skilið að komast áfram í úrslitakeppnina," sagði þjálfarinn eftir leik. „Mér líður eins og mér hafi mistekist."

Pitso misskildi einfaldlega reglurnar. „Heldurðu að ég hafi skilið (sóknarmanninn) Majoro eftir á bekknum ef ég hefði vitað að við þyrftum að skora?"

„Afríka er frumskógur, vinur minn," bætti hann við. „Fyrirkomulagið á undankeppnunum í Evrópu og Suður-Ameríku er miklu betra og þar fer allt eðlilega fram. En það er mjög erfitt að spila í Afríku."

Foráðamenn knattspyrnusambands Suður-Afríku hafa nú áfrýjað þessu máli til Knattspyrnusambands Afríku og neita að viðurkenna þá túlkun á reglum undankeppninnar sem dæmdi þá úr leik um helgina.

Pitso Mosimane

Tengdar fréttir

Suður-Afríkumönnum kippt á jörðina í miðjum fagnaðarlátum

Undankeppni Afríkukeppninnar í knattspyrnu lauk í flestum riðlum í dag og varð mikill ruglingur í einum þeirra til þess að bæði leikmenn og stuðningsmenn Suður-Afríku fögnuðu sæti í aðalkeppninni, þó svo að þeir komust ekki áfram upp úr riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×