Enski boltinn

Dzeko búinn að biðja Mancini og liðsfélagana afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edin Dzeko lét öllum illum látum á varamannabekknum.
Edin Dzeko lét öllum illum látum á varamannabekknum. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bosníumaðurinn Edin Dzeko hefur beðist afsökunar fyrir reiðikast sitt á varamannabekknum eftir að Roberto Mancini skipti honum útaf í tapleik Manchester City á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni á þriðjudaginn. Öll athyglin hefur verið á hegðun Carlos Tevez og mál Dzeko hefur því ekki verið mikill fjölmiðlamatur.

„Ég veit að ég brást illa við og ég hef því talað við strákana og stjórann og beðist afsökunar," sagði Edin Dzeko í viðtali við heimasíðu Manchester City.

„Roberto tók afsökunarbeiðni mína gilda og sagði að það væri allt í lagi á milli okkar. Hann sagði að ég þyrfti bara að mæta jákvæður í næsta leik," sagði Edin Dzeko en

Manchester City mætir Blackburn Rovers á útivelli á morgun.

„Ég var ósáttur því við vorum 2-0 undir því ég vildi vinna leikinn. Það var sérstakt fyrir mig að koma aftur til Þýskalands þar sem að ég spilaði svo lengi. Hlutirnir voru ekki að ganga upp hjá okkur og því var ég extra pirraður," útskýrði Dzeko.

Edin Dzeko skoraði sjö mörk í fyrstu fjórum leikjum Manchester City á tímabilinu en hefur ekki skorað í fjórum leikjum síðan að hann setti fernuna á móti Tottenham á White Hart Lane 28. ágúst síðastliðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×