Enski boltinn

Rooney og Chicharito báðir klárir í Norwich-leikinn um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney og Javier "Chicharito" Hernandez.
Wayne Rooney og Javier "Chicharito" Hernandez. Mynd/AFP
Wayne Rooney og Javier "Chicharito" Hernandez eru báðir búnir að ná sér af meiðslum sínum og verða klárir fyrir leik Manchester United og nýliða Norwich í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á morgun.

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, tilkynnti blaðamönnum þetta í morgun en þar kom einnig fram að Chris Smalling, Nemanja Vidic og Tom Cleverley eru allir ennþá meiddir en þeir munu hinsvegar snúa til baka í liðið eftir landsleikjaghléið.

Wayne Rooney hefur misst af síðustu tveimur leikjum, 1-1 jafntefli við Stoke og 3-3 jafntefli við Basel, en hann var búinn að skora níu mörk í fyrstu fimm umferðum ensku úrvalsdeildarinnar og United vann alla þá leiki. Rooney meiddist aftan í læri á æfingu fyrir Stoke-leikinn.

Javier "Chicharito" Hernandez meiddist aftur á móti eftir aðeins tíu mínútur í leiknum á móti Stoke og var ekki með á móti Basel. Hann er hinsvegar orðinn góður og verður líklega við hlið Rooney í framlínunni á móti nýliðunum á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×