Fótbolti

Of stressaður til að spila með brasilíska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Fernandes er til vinstri á myndinni.
Mario Fernandes er til vinstri á myndinni. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mario Fernandes, 21 árs bakvörður Gremio, var valinn í brasilíska landsliðið fyrir leik á móti Argentínu á miðvikudaginn en treystir sér ekki til að spila leikinn og hefur því boðað forföll.

Fernandes mætti ekki þegar hann átti að hitta landsliðið og sendi seinna frá sér fréttatilkynningu. Þar sagði hann ástæðuna fyrir skrópi sínu vera persónuleg vandamál sem orsöku það mikið stress að það væri ómögulegt fyrir hann að spila þennan leik.

Fernandes gaf ekkert nánar út um það hvað væri í gangi í hans lífi en Gremio gaf líka frá sér yfirlýsingu þar sem félagið segir að leikmaðurinn útiloki það ekki að spila síðar fyrir brasilíska landsliðið.

Mano Menezes, þjálfari Brasilíu, tekur ástæðu Fernandes gilda að þessu sinni en gaf til kynna að þetta gæti ekki komið fyrir aftur.

Fernandes vakti athygli fyrir tveimur árum þegar hann gufaði upp í tvær vikur og Gremio hélt að honum hefði verið rænt. Leikmaðurinn fannst hinsvegar í faðmi fjölskyldunnar og kvartaði yfir þunglyndi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×