Enski boltinn

Mun Ferguson hlífa David de Gea við "loftárásum" Bolton-manna?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David de Gea.
David de Gea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gæti sett Danann Anders Lindegaard í markið hjá United á móti Bolton í dag. Það er þó ekki vegna mistaka David de Gea í fyrstu leikjum sínum heldur vegna þess að skoski stjórinn óttast það að Bolton-menn muni stunda það að keyra inn í De Gea í leiknum. Blaðamenn Guardian velta þessu fyrir sér í morgun.

Ferguson er þegar búinn að ákveða það að hinn tvítugi Spánverji David de Gea verði aðalmarkvörður United-liðsins og það hefur ekkert breyst þótt að De Gea hafi fengið á sig döpur mörk í fyrstu leikjum sínum.

Ferguson biðlaði til Andre Marriner, dómara leiksins á Reebok í dag, að De Gea fengi einhverja vörn frá "loftárásum" leikmanna Bolton.

„Hann fékk ekki þá vörn sem hann átti að fá á móti West Brom en leysti það samt vel. Ég hef sagt það áður að [Peter] Schmeichel komst líka í gegnum svona meðferð á sínum tíma og þetta mun ekki skaða De Gea," sagði Sir Alex Ferguson á blaðamannanfundi í gær og þar var ekki að heyra annað en að De Gea væri að fara að spila leikinn.

Kevin Davies, framherji Bolton, er þekktur fyrir að láta finna fyrir sér og Davies hefur hótað því fyrir leikinn að hann ætli að taka Phil Jones í karphúsið. Ferguson hefur ekki áhyggjur af Phil Jones en Guardian-menn vilja meina að hann ætli að hlífa De Gea fyrir „loftárásum" Bolton-manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×