Enski boltinn

Man United óttast það að Kevin Davies hafi fótbrotið Cleverley í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Cleverley.
Tom Cleverley. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagði það í viðtali við MUTV í gærkvöldi að hann óttist það að miðjumaðurinn Tom Cleverley hafi fótbrotnað í gær eftir ruddatæklingu frá Kevin Davies, fyrirliða Bolton.

United vann leikinn 5-0 en Cleverley meiddist í upphafi leiks og var útaf vellinum þegar United komst yfir eftir aðeins fimm mínútur.

„Tom gæti hafa brotið bein í fætinum. Þetta eru slæm meiðsli og þetta var slæm tækling," sagði Alex Ferguson í viðtali við sjónvarpsstöð Manchester United.

Tom Cleverley hafði stimplað sig inn á miðjuna hjá Manchester United en þessi 22 ára strákur var í láni hjá Wigan á síðustu leiktíð.

„Mér líður ekki vel og eins og ég sé fótbrotinn. Fer í myndatöku á morgun," skrifaði Tom Cleverley inn á fésbókarsíðu sína í gærkvöldi.

„Ég er mjög reiður núna og ég vil að allir viti það að Kevin Davies er ekki búinn að biðja mig afsökunar. Tímabilið gæti verið búið hjá mér en hann hefur ekki beðið mig afsökunar," skrifaði Cleverley.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×