Fótbolti

Carew hylltur í Noregi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Carew fiskar hér vítið í leiknum.
Carew fiskar hér vítið í leiknum.
John Carew er þjóðhetja í Noregi eftir 1-0 sigur Norðmanna gegn Íslendingum í gær. Hann fiskaði vítið sem færði þeim norsku sigurinn á silfurfati.

„Frelsari Drillo,“ segir í risastórri fyrirsögn á forsíðu íþróttahluta Verdens Gang. „Takk, John,“ stóð á forsíðu Dagbladet. Í opnu blaðsins er svo mynd af Carew fagna með þeim Moa og Kjetil Wæhler eftir leik með fyrirsögninni: „Komdu bara, Danmörk.“

Aftonposten hrósaði landsliðsþjálfaranum Egil „Drillo“ Olsen sérstaklega fyrir skiptinguna en Carew kom inn á þegar tíu mínútum voru til leiskloka. Sjö mínútum síðar fiskaði hann vítaspyrnuna sem Moa skoraði úr.

Verdens Gang segir að Carew hafi átt stóran þátt í níu af þeim þrettán stigum sem Norðmenn eru með í undankeppninni. Hann lagði upp sigurmark Erik Huseklepp gegn Portúgal en Norðmenn unnu þann leik óvænt 1-0.

Þá kom hann Norðmönnum í 2-0 forystu gegn Kýpur en þar sem leiknum lyktaði með 2-1 sigri þeirra norsku reyndist mark hans sérstaklega dýrmætt. Hann sé því „frelsari Drillo“.

Dálkahöfundar blaðanna hrósa einnig Carew mikið. „Í 80 mínútur hljóp Moa völlinn á Ullevaal fram og til baka til að leita sér að leikfélaga. Þá kom John Carew inn á,“ skrifar Truls Dæhli í VG. „Finnum einhvern sem Moa getur leikið sér við á Parken. Hann þarf á því að halda og honum finnst gott að leika við Carew. Ég er þess fullviss að það tvíeyki gerir norska liðið enn hættulegra og sterkara.“

Þess má geta að á forsíðu íþróttablaðs VG á föstudaginn var mynd af vinstri skó Moa með fyrirsögninni: „Þessir skór eiga að ganga frá Íslandi.“ Það átti sannarlega eftir að verða raunin.

Miðjumaðurinn Alexander Tettey, sem átti skot í stöng íslenska marksins í leiknum í gær, var sá eini sem fékk 7 í einkunnagjöf Dagbladet. Aðrir fengu 5 eða 6, nema þeir Henning Hauger og Moa sem fengu báðir fjóra.

Fyrirliðinn og varnarmaðurinn Brede Hangeland var maður leiksins hjá VG. Hann fékk 7 í einkunn, eins og bakvörðurinn Tom Högli og áðurnefndur Tettey. Aðrir fengu 5 eða 6, nema Jonathan Parr sem fékk 4.

Íslensku leikmennirnir fá einnig einkunn í VG. Stefán Logi Magnússon fékk 7 og þeir Sölvi Geir Ottesen og Hjörtur Logi Valgarðsson 6. Aðrir fá 4 eða 5 nema þeir Jóhann Berg Guðmundsson og Kolbeinn Sigþórsson - báðir fá 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×